(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Fyrirlestur Margaret Ezell 18. júní

Fyrirlestur Margaret Ezell 18. júní

by | 7. júl, 2008 | Fréttir

Bandaríski bókmenntafræðingurinn Margaret J.M. Ezell heldur opinn fyrirlestur í ReykjavíkurAkademíunni miðvikudaginn 18. júní kl 16:15. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina Blank Spaces: Studying Handwritten Cultures og fjallar um handritamenningu á tímum prentvæðingar og rannsóknir á henni.

Davíð Ólafsson, doktorsnemi í sagnfræði, kynnir Ezell og verk hennar. Davíð er að leggja lokahönd á doktorsritgerð um Sighvat Grímsson Borgfirðing, ritstörf hans og íslenska handritamenningu á 19. öld í samhengi alþjóðlegra rannsókna.

Að loknum fyrirlestri Ezell og umræðum mun Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar fjalla um fræðimanninn, skáldið og skrifarann Gísla Konráðsson (1787-1877) og kynna nýja rannsóknarstofnun innan ReykjavíkurAkademíunnar, Stofnun Gísla Konráðssonar í handritarannsóknum síðari alda, sem stofnsett verður á fæðingardegi hans 18. júní.

Margaret Ezell er prófessor í enskum bókmenntum við Texas A&M University í bandaríkjunum með bókmenntir 17. og 18. aldar að sérsviði. Hún hefur undanfarna tvo áratugi verið í framvarðasveit þeirra fræðimanna sem rannsakað hafa hlutverk og virkni handritamenningar eftir tilkomu prenttækni Gutenbergs. Ezell hefur meðal annars lagt áherslu á endurskoðun bókmenntasögu kvenna fyrir atbeina handritarannsókna síðari alda og veitt nýja sýn á höfundarhugtakið í ljósi handritaðrar miðlunar á árnýöld, einkum í áhrifamiklu riti sínu Social Authorship and the Advent of Print (1999).
Rannsóknir og kenningar Margaret Ezell eru einkar áhugaverðar fyrir íslenska fræðimenn í ljósi þess að miðlun og neysla bókmennta hérlendis fór að mestu leyti fram á vettvangi handritamenningar fram undir aldamótin 1900. Það er því mikill fengur og heiður fyrir ReykjavíkurAkademíuna og Stofnun Gísla Konráðssonar að fá fræðimann í fremstu röð á því vaxandi sviði bókmennta og menningarsögu sem handritarannsóknir síðari alda eru til að kynna rannsóknir sínar og hugmyndir.