Prismanám Listaháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst í samstarfi við ReykjavíkurAkademíuna er tilnefnt sem eitt af fyrirmyndarverkefnum um færniþróun á vinnumarkaði á Norðurlöndum.
NVL, Norræna tengslanetið um nám fullorðinna stendur fyrir vali á fyrirmyndarverkefnum, hvaðanæva af Norðurlöndunum, þar sem fræðslu/menntun er beitt til þess að bregðast við breytingum á vinnumarkaði. Markmiðið er að komast að því hvað einkennir slík verkefni, hverjir koma að tilurð þeirra og þróun og hvaða þættir verða að vera til staðar til þess að slík verkefni heppnist.
Hér á landi hafa átta verkefni verið valin úr á þriðja tug tilnefninga og er Prisma-námið eitt þeirra. Prisma er nýtt þverfaglegt diplómanám sem var sett á laggirnar sem viðbrögð Listaháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst við því ástandi sem skapaðist hér á landi í kjölfar bankahruns. Námið hefur vakið athygli hér heima og erlendis enda er um nýsköpun í menntun að ræða. Fjöldi hugmynda og spennandi verkefna hafa sprottið upp í náminu og verið hrint í framkvæmd.