Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík hefur gert samstarfssamning við Matís og ReykjavíkurAkademíuna um þróun námskeiða og námslína auk kennslu til að efla menntun í íslensku atvinnulífi. Framsækin þjálfun og menntun stjórnenda, sérfræðinga og starfsfólks fyrirtækja gerir þeim kleift að skara fram úr í samkeppni og vera skapandi á tímum breytinga.
„Opni háskólinn leggur metnað sinn í að bjóða íslensku atvinnulífi aðgang að öflugu fagfólki og fagnar því að geta bætt fagsviðum við núverandi framboð Opna háskólans með samstarfssamningum við Matís og ReykjavíkurAkademíuna,” segir Guðrún Högnadóttur, framkvæmdastjóri Opna háskólans um samstarfið.
„Í starfi ReykjavíkurAkademíunnar er mikilvægt að finna leiðir til að miðla þekkingu þeirra fræðimanna sem þar starfa og hagnýta hana með fjölbreyttum hætti. Í þeirri kreppu sem nú herðir að samfélaginu fer víða fram endurskoðun á grundvallarhugmyndum atvinnulífs og samfélags. Með samstarfi við Opna háskólann tekur ReykjavíkurAkademían í fyrsta sinn þátt í fræðslu fyrir atvinnulífið og ekki þarf að efast um að þar munu gagnkvæm kynni auðga alla sem þátt taka,” segir Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunar.
Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, leggur áherslu á að samstarfssamningur þessi falli mjög vel að starfsemi Matís enda er eitt markmiða Matís að koma að öflugri kennslu og endurmenntun, m.a. í gegnum samstarf við háskóla á Íslandi sem og aðrar menntastofnanir. „Á þann hátt er búin til öflug tenging á milli vísindastarfs og rannsókna annars vegar og atvinnulífs hins vegar.”
Með samstarfinu vill Opni háskólinn auðga íslenskt samfélag með miðlun og virkjun þekkingar utan hefðbundinna námslína á háskólastigi. Með markvissri þjálfun og menntun starfsmanna geta íslensk fyrirtæki mætt breyttu viðskiptaumhverfi með kraftmeiri hætti en áður.
Myndin hér að neðan var tekin við undirritun samningsins. Á myndinni eru, frá vinstri til hægri, Sjöfn Sigurgísladóttir, Guðrún Högnadóttur og Viðar Hreinsson.