Stjórn Mannfræðifélags Íslands vekur athygli á næsta fyrirlestri félagsins í fyrirlestraröðinni VETTVANGUR, NÁLGUN, SIÐFERÐI verður á þriðjudaginn kemur, 10. mars kl. 20:00 í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð. Þá mun dr. Jónína Einarsdóttir tala um efnið: Siðareglur – til hvers?
Þess er krafist að fræðimen séu sér meðvitaðir um siðferðileg álitamál sem tengjast rannsóknum þeirra og að rannsóknir séu framkvæmdar með þeim hætti að þær valdi viðföngum ekki skaða. Í erindinu mun Jónína ræða um hin ýmsu sjónarmið um mikilvægi þess að mannfræðin setji sér siðareglur. Hún mun einnig ræða hugsanlegt verksvið siðanefnda sem hafa það hlutverk að meta rannsóknir mannfræðinga og annarra fræðimanna með tilliti til siðferðilegra sjónarmiða og hugsanlegs skaða sem þær geti valdið þátttkendum, rannsakanda, fræðasamfélaginu, styrkveitendum o fl.
Dr. Jónína Einarsdóttir er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur um árabil stundað viðamiklar rannsóknir í Gíneu-Bissau, Íslandi og Svíþjóð, m.a. á sviði þróunarfræði og siðfræði rannsókna.
Fyrirlesturinn er öllum opinn. Sérstaklega eru nemendur, einkum í félagsvísindagreinum sérstaklega boðnir velkomnir, svo og allir þeir sem koma að rannsóknum þar sem maðurinn er viðfangsefni.