Rannsóknaverkefnið Fortíð norðursins endurheimt. Mótun þjóðlegra og þverþjóðlegra sjálfsmynda á grundvelli norrænna forbókmennta 1750-1900 sem hýst er við ReykjavíkurAkademíuna hlaut styrk til þriggja ára úr Rannsóknasjóði 2024. Verkefnisstjórnina mynda þeir Gylfi Gunnlaugsson, Clarence Glad og Jon Gunnar Jørgensen.
Áður hafa þeir Gylfi og Clarence leitt rannsóknarverkefnið Íslenskar fornritarannsóknir og þjóðarmenning 1780-1918 sem hlaut verkefnisstyrk úr Rannsóknasjóði árið 2014 og var hýst við ReykjavíkurAkademíuna. Ein afurð þess verkefnis var greinasafnið Old Norse-Icelandic Philology and National Identity in the Long Nineteenth Century sem þeir Gylfi og Clarence ritstýrðu og inniheldur auk ítarlegs inngangs, tólf ritgerðir sem fjalla um þjóðernisleg viðhorf hóps fræðimanna, einkum íslenskra sem stunduðu rannsóknir og útgáfur á norrænum fornbókmenntum. Ritið sem hefur hlotið lofsamlegar umsagnir kom út hjá hollenska forlaginu Brill árið 2022 og var af því tilefni haldin málstofa í Dagsbrún fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar. Upptökur frá málþinginu eru aðgengilegar á miðlum ReykjavíkurAkademíunnar og ritið er hægt að nálgast hjá útgefanda..
Fortíð norðursins endurheimt eða Reclaiming the Northern Past. The Shaping of National and Transnational Identities through Old Norse Literature 1750-1900 er eitt af þremur verkefnum á sviði hugvísinda og lista sem hlutu styrk að þessu sinni. ReykjavíkurAkademían óskar aðstandendum verkefnisins innilega til hamingju og hlakkar til að fylgja því eftir.
Tilkynnt var um úthlutun úr Rannsóknasjóði föstudaginn 12. janúar og þá voru meðfylgjandi myndir teknar af Gylfa Gunnlaugssyni fulltrúa Fortíð norðursins endurheimt á viðburðinum ásamt öðrum styrkþegum Rannsóknasjóðs árið 2024.
Fljótlega munum við birta nánari upplýsingar um rannsóknaverkefnið á miðlum Akademíunnar en frekari upplýsingar um úthlutun ársins 2024 er að finna á vef Rannís og frekari greining á úthlutuninni mun birtast á vef Rannsóknasjóðs .