1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Umsögn um frumvarp um opinberan stuðning við vísindi og nýsköpun

Umsögn um frumvarp um opinberan stuðning við vísindi og nýsköpun

by | 12. Nov, 2024 | Fréttir, Umhverfi rannsókna

ReykjavíkurAkademían hefur sent inn umsögn um frumvarp við opinberan stuðning við vísindi og nýsköpun sem birt var á Samráðsgátt stjórnvalda, Mál: S-219/2024.

Hér er umsögnin birt í heild sinni:

Reykjavík, 12. nóvember 2024
Tilv. 2411-04

Umsögn ReykjavíkurAkademíunnar ses um drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við vísindi og nýsköpun. Mál nr. S-219/2024

Um eru að ræða afar umfangsmiklar kerfisbreytingar á opinberu sjóðaumhverfi sem er ætlað að auka sveigjanleika og einfalda umsýslukostnað. Til þess að tryggt verði að markmið laganna náist fram en leiði ekki til fækkun tækifæra og þröngrar sýn á rannsóknir og nýsköpun þá er nauðsynlegt að nokkur álitamál verði skýrð betur.

 

Mikilvægi og sérstaða Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna er vel skýrt í umsögn Hagþenkis.
Komi til þess að Vísindasjóður taki yfir hlutverk Starfslaunasjóðsins þá er nauðsynlegt að það komi fram í 3. grein laganna að hlutverk Vísindasjóðs sé að styrkja hagnýt verkefni og sjóðnum sé skylt að styrkja verkefni sem beinast að íslensku samfélagi og eru rituð á íslensku.

 

Jöfnun aðstöðumunar sjálfstætt starfandi vísindamanna

Þess þarf að gæta að sjálfstætt starfandi fræðimenn eigi greiðan aðgang að hinu nýja, fyrirhugaða sjóðakerfi og að unnið verði gegn þeirri ósanngjörnu samkeppni sem er til staðar gagnvart fólki sem starfar á launum innan háskólaumhverfisins. Ósanngirnin felst m.a. í kröfum um að rannsóknaverkefnin hafi víða alþjóðlega tilvísun, séu unnin af stórum hópum og feli í sér þjálfun doktorsnema.
Við þessu kerfisbundna óréttlæti má bregðast á ýmsan hátt. Til dæmis með því að merkja hluta Vísindasjóðs umsækjendum sem eru ótengdir háskólum eða með veitingu sóknarstyrkja til fræðafólks sem starfar sjálftætt og hyggjast sækja um styrki til vísindarannsókna.
Þá er nauðsynlegt að fram komi í 5. grein frumvarpsins að mat fagráða á aðstöðu umsækjenda til að framkvæma verkið þýði ekki að fræðafólks sem starfar sjálfstætt sé kerfisbundið útilokað frá úthlutun úr Vísindasjóði.
Benda má á eftirfarandi greinar og skýrslur sem lýsa vel sérstöðu fræðafólks sem starfar utan háskólanna, kerfisbundinni útlokun frá Rannsóknasjóði og mikilvægi þess að verkefni þess eins og annarra vísindamanna séu styrkt af opinberum sjóðum:

Sigurður Gylfi Magnússon, Dómur sögunnar er ævinlega rangur! Háskólalíf og vísindapólitík á vorum dögum. Saga 2010 XXXXVIII:II s. 155-180

Sigurður Gylfi Magnússon, Rannsóknar(náms)sjóðir. Álitamál um háskóla- og vísindapólitík. Saga 2011 IL:II 219-221

Opinber fjármögnun rannsókna fræðafólks sem starfar sjálfstætt. Tillögur til úrbóta. Unnin af starfshópi stjórnar RA um umgjörð rannsókna fræðasamfélagsins utan háskóla. RA-2022-3 Ritstjóri Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir. (ReykjavíkurAkademían, 2022)

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir og Lilja Hjartardóttir, Undan huliðshjálminum. Fræðasamfélagið utan háskólanna. Saga 2023 LXI:I s. 167-183.

 

Samfélagsleg nýsköpun

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að Nýsköpunarsjóði er ætlað að styðja við nýsköpun á öllum sviðum. Þessi hugsun þarf að skila sér inn í 9. grein frumvarpsins. Þá er mikilvægt að hugtakið nýsköpun sé opið og í takt við nýja tíma og feli í sér hvers konar samfélagslega nýsköpun sem á sviði hug- og félagsvísinda felst í miðlun nýrrar þekkingar inn í samfélagið til dæmis í formi útgáfu fræðirita, gerð starfræns fræðsluefnis, kennsluefnis fyrir skóla og sýningar á söfnum. Til að tryggja að nýsköpunarsjóður styrki öll svið samfélagsins er því lagt til að ReykjavíkurAkademían tilnefni fulltrúa í stjórn sjóðsins.

 

Aukin áhrif stjórnvalda á rannsóknir og nýsköpun

Það er ekki undan því vikist að taka upp mikilvægi þess að með fyrirliggjandi frumvarpi og þeim breytingum sem á undanförnum árum hafa verið gerðar á lögum um uppbyggingu vísinda- og nýsköpunarumhverfisins á íslandi þá hafa pólitísk áhrif verið aukin verulega á kostnað áhrifa vísindasamfélagsins. ReykjavíkurAkademían tekur undir þær áhyggjur sem fram koma í umsögn Háskóla Íslands og varða m.a. skipun stjórna og fagráða, þær hæfniskröfur sem gerðar eru.

 

Fyrir hönd ReykjavíkurAkademíunnar ses

________________________________________
Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir framkvæmdastjóri

Tengill á umsögn ReykjavíkurAkademíunnar