Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Opinn fyrirlestur: Aukið minni og tilfinningaleg velferð með minnisteikningu

9. January kl. 17:00 - 19:00

Minnisteikning Unnur Óttarsdóttir

Dr. Unnur Guðrún Óttarsdóttir kennari og listmeðferðarfræðingur og fræðikona við ReykjavíkurAkademíuna flytur fyrirlesturinn Aukið minni og tilfinningaleg velferð með minnisteikningu í Dagsbrún, fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar. Tilefnið eru niðurstöður minnisteiknirannsóknar sem birtar voru nýlega í opnum aðgangi í tímaritinu Education Sciences og í bókarkafla sem gefin var út hjá Routledge.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn en sætafjöldi takmarkaður og því er nauðsynlegt að skrá sig hér.

Rannsóknin fólst í því að biðja 134 börn og 262 fullorðna að skrifa og teikna merkingu orða og rifja þau síðan upp eftir mislangan tíma. Í vísindagrein Unnar sem nefnist: Experiments on the Efficacy of Drawing for Memorization among Adults and Children with Varying Written Word Memory Capacities: A Two-Way Crossover Design, kemur fram að einstaklingar sem eiga gott með að muna skrifuð orð muna enn betur til langs tíma með því að teikna. Rannsóknin sýnir einnig að einstaklingar sem eiga erfitt með að muna skrifuð orð eiga miklu betra með að muna orðin bæði í skamman og langan tíma með því að teikna merkingu þeirra.

Unnur hefur einnig rannsakað áhrif teikninga á tilfinningalega úrvinnslu. Í þessar tengdu rannsókn þróaði Unnur námslistmeðferð, þar sem listræn tjáning er notuð bæði í menntunar- og meðferðarlegum tilgangi. Í rannsókninni, sem kom út í bókarkaflanum Memory drawing for children who have experienced stress and/or trauma and have specific learning difficulties , fundust sterkar vísbendingar um að teikning í námslistmeðferð geti hjálpað börnum sem hafa upplifað streitu eða áföll að vinna úr tilfinningum sínum auk þess að bæta námsárangur.

Unnur vann rannsóknina við ReykjavíkurAkademíuna. Hefur hún skrifað ritrýndar greinar og bókarkafla um efnið, haldið erindi á ráðstefnum og kennt í háskólum víða um heim. Hún situr um þessar mundir í stjórn ReykjavíkurAkademíunnar og rannsóknarnefndar Félags listmeðferðarfræðinga í Evrópu (EFAT).

Ýtarlegar upplýsingar um minnisteiknirannsóknina má finna í grein Unnar sem birtist á þessu ári í opnum aðgangi í tímaritinu Education Sciences, á vefslóðinni: https://doi.org/10.3390/educsci14050470

Organizer

ReykjavíkurAkademían ses
Phone
+3545628565
Email
ra@akademia.is
View Organizer Website